Bad Advertisement?

News / Reviews:
  • World News
  • Movie Reviews
  • Book Search

    Are you a Christian?

    Online Store:
  • Visit Our eBay Store



  • ICELANDIC BIBLE - 2KINGS 9

    PREVIOUS CHAPTER - NEXT CHAPTER - HELP


    9:1 Elísa spámaður kallaði einn af spámannasveinunum og sagði við hann: ,,Gyrð þú lendar þínar, tak þessa flösku af olífuolíu með þér og far til Ramót í Gíleað.

    9:2 Og er þú ert þangað kominn, skalt þú svipast þar um eftir Jehú Jósafatssyni, Nimsísonar. Gakk síðan til hans og bið hann standa upp frá félögum sínum og far með hann inn í innsta herbergið.

    9:3 Því næst skalt þú hella olífuolíunni yfir höfuð honum og segja: ,Svo segir Drottinn: Ég smyr þig til konungs yfir Ísrael.` Opna þú síðan dyrnar og flýt þér burt og dvel eigi.``

    9:4 Fór þá sveinninn, sveinn spámannsins, til Ramót í Gíleað.

    9:5 En er hann kom þangað, sátu herforingjarnir þar saman. Og hann mælti: ,,Ég á erindi við þig, herforingi!`` Jehú svaraði: ,,Við hvern af oss?`` Hann svaraði: ,,Við þig, herforingi!``

    9:6 Þá stóð hann upp og gekk inn í húsið. Og hann hellti olíu yfir höfuð honum og sagði við hann: ,,Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Ég smyr þig til konungs yfir lýð Drottins, yfir Ísrael.

    9:7 Þú skalt útrýma ætt Akabs, herra þíns, svo að ég fái þann veg komið fram hefndum á Jesebel fyrir blóð þjóna minna, spámannanna, og fyrir blóð allra þjóna Drottins.

    9:8 Já, öll ætt Akabs skal fyrirfarast, og ég mun uppræta fyrir Akabsætt hvern karlmann, bæði þræl og frelsingja í Ísrael.

    9:9 Og ég mun fara með ætt Akabs eins og með ætt Jeróbóams Nebatssonar og ætt Basa Ahíasonar.

    9:10 En Jesebel skulu hundar eta í landareign Jesreelborgar, og enginn skal jarða hana.`` Síðan lauk hann upp hurðinni og flýtti sér burt.

    9:11 En er Jehú kom út til þjóna herra síns, sögðu þeir við hann: ,,Er nokkuð að? Hvers vegna er þessi vitfirringur til þín kominn?`` Hann svaraði þeim: ,,Þér þekkið manninn og tal hans.``

    9:12 Þá sögðu þeir: ,,Það er ósatt mál! Seg oss það.`` Þá sagði hann: ,,Svo og svo hefir hann við mig talað og sagt: ,Svo segir Drottinn: Ég smyr þig til konungs yfir Ísrael.```

    9:13 Þá tóku þeir í skyndi hver sína yfirhöfn og lögðu fyrir fætur honum á sjálfar tröppurnar, þeyttu lúðurinn og hrópuðu: ,,Jehú er konungur orðinn!``

    9:14 Þannig hóf Jehú Jósafatsson, Nimsísonar, samsæri gegn Jóram, en Jóram og allur Ísrael hafði varið Ramót í Gíleað fyrir Hasael Sýrlandskonungi.

    9:15 En síðan hafði Jóram konungur snúið aftur til þess að láta græða sár sín í Jesreel, þau er Sýrlendingar höfðu veitt honum, þá er hann barðist við Hasael Sýrlandskonung. Jehú mælti: ,,Ef þér viljið fylgja mér, þá látið engan undan komast út úr borginni til þess að segja tíðindin í Jesreel.``

    9:16 Síðan steig Jehú á vagn sinn og hélt til Jesreel, því að þar lá Jóram, og Ahasía Júdakonungur var kominn þangað til að vitja um Jóram.

    9:17 Varðmaður stóð uppi á turninum í Jesreel, og er hann sá flokk Jehú koma, sagði hann: ,,Ég sé flokk manna.`` Þá mælti Jóram: ,,Tak riddara og send móti þeim til þess að spyrja þá, hvort þeir fari með friði.``

    9:18 Riddarinn fór í móti honum og sagði: ,,Konungur lætur spyrja, hvort þér farið með friði.`` Jehú svaraði: ,,Hvað varðar þig um það? Snú við og fylg mér.`` Varðmaðurinn sagði frá því og mælti: ,,Sendimaðurinn er kominn til þeirra, en kemur ekki aftur.``

    9:19 Þá sendi hann annan riddara, og er hann kom til þeirra, sagði hann: ,,Konungur lætur spyrja, hvort þér farið með friði.`` Jehú svaraði: ,,Hvað varðar þig um það? Snú við og fylg mér.``

    9:20 Varðmaðurinn sagði frá því og mælti: ,,Hann er kominn til þeirra, en kemur ekki aftur. Er þar ekið, sem aki þar Jehú Nimsíson, því að hann ekur eins og vitlaus maður.``

    9:21 Þá bauð Jóram að beita fyrir vagn sinn. Og er beitt hafði verið fyrir vagn hans, fóru þeir Jóram Ísraelskonungur og Ahasía Júdakonungur af stað, hvor á sínum vagni. Fóru þeir í móti Jehú og hittu hann á landspildu Nabóts Jesreelíta.

    9:22 En er Jóram sá Jehú, sagði hann: ,,Fer þú með friði, Jehú?`` Hann svaraði: ,,Hvað er um frið að ræða, meðan Jesebel móðir þín heldur áfram með hórdóm sinn og hina margvíslegu töfra sína?``

    9:23 Þá sneri Jóram við og lagði á flótta og kallaði til Ahasía: ,,Svik, Ahasía!``

    9:24 En Jehú þreif boga sinn og skaut Jóram milli herða, svo að örin gekk í gegnum hjartað, og hné hann niður í vagni sínum.

    9:25 Þá sagði hann við Bídkar, riddara sinn: ,,Tak hann og kasta honum á landspildu Nabóts Jesreelíta, því að þú manst víst, að ég og þú riðum báðir á eftir Akab föður hans, þá er Drottinn kvað upp þessi dómsorð gegn honum:

    9:26 ,Sannarlega sá ég í gær blóð Nabóts og blóð barna hans, segir Drottinn, og mun ég launa þér á landspildu þessari, segir Drottinn.` Tak hann því og kasta honum á landspilduna eftir orði Drottins.``

    9:27 Þegar Ahasía Júdakonungur sá þetta, flýði hann í áttina til garðhússins. En Jehú elti hann og sagði: ,,Hann líka! Skjótið hann í vagninum!`` Og þeir skutu hann á Gúr-stígnum, sem er hjá Jibleam. Og hann flýði til Megiddó og dó þar.

    9:28 Síðan settu menn hans hann á vagn og fluttu hann til Jerúsalem og jörðuðu hann í gröf hans hjá feðrum hans í borg Davíðs.

    9:29 En Ahasía hafði orðið konungur í Júda á ellefta ríkisári Jórams Akabssonar.

    9:30 Nú kom Jehú til Jesreel. En er Jesebel frétti það, smurði hún sig í kringum augun skrýddi höfuð sitt og horfði út um gluggann.

    9:31 Og er Jehú kom í hliðið, kallaði hún: ,,Hvernig líður Simrí, sem myrti herra sinn?``

    9:32 En hann leit upp í gluggann og mælti: ,,Hver er með mér, hver?`` Og er tveir eða þrír hirðmenn litu út til hans,

    9:33 sagði hann: ,,Kastið henni ofan!`` Og þeir köstuðu henni ofan, og slettist þá blóð hennar á vegginn og hestana, og tróðu þeir hana undir fótunum.

    9:34 En hann gekk inn og át og drakk. Síðan sagði hann: ,,Lítið eftir þessari bölvuðu konu og jarðið hana, því að konungsdóttir er hún.``

    9:35 Þá fóru þeir til þess að jarða hana, en fundu ekkert af henni, nema hauskúpuna og fætur og hendur.

    9:36 Og er þeir komu aftur og sögðu honum frá, mælti hann: ,,Rætast nú orð Drottins, þau er hann talaði fyrir munn þjóns síns Elía frá Tisbe: ,Á landareign Jesreelborgar skulu hundar eta hold Jesebelar,

    9:37 og hræ Jesebelar skal liggja á landareign Jesreelborgar sem tað á túni, svo að menn skulu ekki geta sagt: Það er Jesebel.```

    GOTO NEXT CHAPTER - BIBLE INDEX & SEARCH

    God Rules.NET
    Search 100+ volumes of books at one time. Luther Bible Search Engine. Elberfelder Bible Search Engine. German SCH Bible Search Engine