Bad Advertisement?

News / Reviews:
  • World News
  • Movie Reviews
  • Book Search

    Are you a Christian?

    Online Store:
  • Visit Our eBay Store



  • ICELANDIC BIBLE - JOHN 7

    PREVIOUS CHAPTER - NEXT CHAPTER - HELP


    7:1 Eftir þetta fór Jesús um Galíleu. Hann vildi ekki fara um Júdeu, sökum þess að Gyðingar sátu um líf hans.

    7:2 Nú fór að hátíð Gyðinga, laufskálahátíðin.

    7:3 Þá sögðu bræður hans við hann: ,,Flyt þig héðan og farðu til Júdeu, til þess að lærisveinar þínir sjái líka verkin þín, sem þú gjörir.

    7:4 Því enginn starfar í leynum, ef hann vill verða alkunnur. Fyrst þú vinnur slík verk, þá opinbera sjálfan þig heiminum.``

    7:5 Því jafnvel bræður hans trúðu ekki á hann.

    7:6 Jesús sagði við þá: ,,Minn tími er ekki enn kominn, en yður hentar allur tími.

    7:7 Heimurinn getur ekki hatað yður. Mig hatar hann, af því ég vitna um hann, að verk hans eru vond.

    7:8 Þér skuluð fara upp eftir á hátíðina. Ég fer ekki til þessarar hátíðar, því minn tími er ekki enn kominn.``

    7:9 Þetta sagði hann þeim og var kyrr í Galíleu.

    7:10 Þegar bræður hans voru farnir upp eftir til hátíðarinnar, fór hann samt líka upp eftir, ekki svo menn vissu, heldur nánast á laun.

    7:11 Gyðingar voru að leita að honum á hátíðinni og spurðu, hvar hann væri.

    7:12 Manna á meðal var margt um hann talað. Sumir sögðu: ,,Hann er góður,`` en aðrir sögðu: ,,Nei, hann leiðir fjöldann í villu.``

    7:13 Þó talaði enginn opinskátt um hann af ótta við Gyðinga.

    7:14 Er hátíðin var þegar hálfnuð, fór Jesús upp í helgidóminn og tók að kenna.

    7:15 Gyðingar urðu forviða og sögðu: ,,Hvernig hefur þessi maður orðið lærður og hefur þó ekki fræðslu notið?``

    7:16 Jesús svaraði þeim: ,,Kenning mín er ekki mín, heldur hans, er sendi mig.

    7:17 Sá sem vill gjöra vilja hans, mun komast að raun um, hvort kenningin er frá Guði eða ég tala af sjálfum mér.

    7:18 Sá sem talar af sjálfum sér, leitar eigin heiðurs, en sá sem leitar heiðurs þess, er sendi hann, er sannorður og í honum ekkert ranglæti.

    7:19 Gaf Móse yður ekki lögmálið? Samt heldur enginn yðar lögmálið. Hví sitjið þér um líf mitt?``

    7:20 Fólkið ansaði: ,,Þú ert haldinn illum anda. Hver situr um líf þitt?``

    7:21 Jesús svaraði þeim: ,,Eitt verk gjörði ég, og þér undrist það allir.

    7:22 Móse gaf yður umskurnina _ hún er að vísu ekki frá Móse, heldur feðrunum _ og þér umskerið mann jafnvel á hvíldardegi.

    7:23 Fyrst maður er umskorinn á hvíldardegi, til þess að lögmál Móse verði ekki brotið, hví reiðist þér mér, að ég gjörði manninn allan heilan á hvíldardegi?

    7:24 Dæmið ekki eftir útliti, dæmið réttlátan dóm.``

    7:25 Þá sögðu nokkrir Jerúsalembúar: ,,Er þetta ekki sá, sem þeir sitja um að lífláta?

    7:26 Og nú er hann að tala á almannafæri, og þeir segja ekkert við hann. Skyldu nú höfðingjarnir hafa komist að raun um, að hann sé Kristur?

    7:27 Nei, vér vitum, hvaðan þessi maður er. Þegar Kristur kemur, veit enginn, hvaðan hann er.``

    7:28 Jesús var að kenna í helgidóminum, og nú kallaði hann: ,,Bæði þekkið þér mig og vitið hvaðan ég er. Þó er ég ekki kominn af sjálfum mér. En sá er sannur, sem sendi mig, og hann þekkið þér ekki.

    7:29 Ég þekki hann, því ég er frá honum og hann sendi mig.``

    7:30 Nú ætluðu þeir að grípa hann, en enginn lagði hendur á hann, því stund hans var enn ekki komin.

    7:31 En af alþýðu manna tóku margir að trúa á hann og sögðu: ,,Mun Kristur gjöra fleiri tákn, þegar hann kemur, en þessi maður hefur gjört?``

    7:32 Farísear heyrðu, að fólk var að skrafa þetta um hann, og æðstu prestar og farísear sendu þjóna að taka hann höndum.

    7:33 Þá sagði Jesús: ,,Enn verð ég hjá yður skamma stund, og þá fer ég aftur til þess, sem sendi mig.

    7:34 Þér munuð leita mín og eigi finna. Þér getið ekki komist þangað sem ég er.``

    7:35 Þá sögðu Gyðingar sín á milli: ,,Hvert skyldi hann ætla að fara, svo að vér finnum hann ekki? Hann ætlar þó ekki að fara til Gyðinga, sem dreifðir eru meðal Grikkja og kenna Grikkjum?

    7:36 Hvað var hann að segja: ,Þér munuð leita mín og eigi finna, og þér getið ekki komist þangað sem ég er`?``

    7:37 Síðasta daginn, hátíðardaginn mikla, stóð Jesús þar og kallaði: ,,Ef nokkurn þyrstir, þá komi hann til mín og drekki.

    7:38 Sá sem trúir á mig, _ frá hjarta hans munu renna lækir lifandi vatns, eins og ritningin segir.``

    7:39 Þarna átti hann við andann, er þeir skyldu hljóta, sem á hann trúa. Því enn var andinn ekki gefinn, þar eð Jesús var ekki enn dýrlegur orðinn.

    7:40 Þá sögðu nokkrir úr mannfjöldanum, sem hlýddu á þessi orð: ,,Þessi er sannarlega spámaðurinn.``

    7:41 Aðrir mæltu: ,,Hann er Kristur.`` En sumir sögðu: ,,Mundi Kristur þá koma frá Galíleu?

    7:42 Hefur ekki ritningin sagt, að Kristur komi af kyni Davíðs og frá Betlehem, þorpinu þar sem Davíð var?``

    7:43 Þannig greindi menn á um hann.

    7:44 Nokkrir þeirra vildu grípa hann, en þó lagði enginn hendur á hann.

    7:45 Nú komu þjónarnir til æðstu prestanna og faríseanna, sem sögðu við þá: ,,Hvers vegna komuð þér ekki með hann?``

    7:46 Þjónarnir svöruðu: ,,Aldrei hefur nokkur maður talað þannig.``

    7:47 Þá sögðu farísearnir: ,,Létuð þér þá einnig leiðast afvega?

    7:48 Ætli nokkur af höfðingjunum hafi farið að trúa á hann, eða þá af faríseum?

    7:49 Þessi almúgi, sem veit ekkert í lögmálinu, hann er bölvaður!``

    7:50 Nikódemus, sem kom til hans fyrrum og var einn af þeim, segir við þá:

    7:51 ,,Mundi lögmál vort dæma mann, nema hann sé yfirheyrður áður og að því komist, hvað hann hefur aðhafst?``

    7:52 Þeir svöruðu honum: ,,Ert þú nú líka frá Galíleu? Gáðu að og sjáðu, að enginn spámaður kemur úr Galíleu.``

    7:53 [Nú fór hver heim til sín.

    GOTO NEXT CHAPTER - BIBLE INDEX & SEARCH

    God Rules.NET
    Search 100+ volumes of books at one time. Luther Bible Search Engine. Elberfelder Bible Search Engine. German SCH Bible Search Engine